Föstudagur, mars 29, 2024
Heim Blogg

Málefni Herjólfs rædd á íbúafundi

bidrod_bbilar_herj_2022
Herjólfur í Landeyjahöfn. Eyjar.net/TMS

Miðvikudaginn 10.apríl verður haldinn íbúafundur um málefni Herjólfs. Það er Herjólfur ohf. sem boðar fundinn sem verður í Akóges og hefst hann klukkan 17.30.

Dagskrá fundarins er svona: Fundur opnaður : Páll Scheving, stjórnarformaður Herjólfs ohf. Erindi: Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. Pallborð: Umræður og fyrirspurnir. Jóhann Pétursson stýrir fundinum.

Takk fyrir mig

Leikfelag_spamalot_20240328_223036
Myndin er tekin í lok frumsýningarinnar í gær.

Í gær frumsýndi Leikfélag Vestmannaeyja söngleikinn Spamalot fyrir fullum sal af fólki.

Eftirvæntingin skein úr augum fólks fyrir sýningu og þegar tjöldin voru dregin frá hófst þessi líka sýningin. Greinilegt var að leiklistarmennirnir hafi lagt mikla vinnu í verkið, sem hélt áhorfendum við efnið frá fyrstu mínútu.

Verkið fjallar um leit Arthúrs konungs og riddara hringborðsins að hinu helga grali, en breska tón- og leikskáldið Eric Idle vann söngleikinn upp úr kvikmyndinni Monty Python and the Holy Grail árið 2004. Viðamikið verk og mikið líf oft á tíðum á sviðinu.

Erfitt er að taka einhvern einn út, þar sem allir leikararnir stóðu algjörlega undir væntingum. Leikmyndin var góð en leitað var í Fab Lab smiðjuna hér í Eyjum til samstarfs um leikmyndina.

Góður söngur og dans komust vel til skila auk þess sem mikið var hlegið, þess á milli. Þá má hrósa lýsingunni og hljóðið skilaði sér vel til áhorfenda.

Það er ekki sjálfgefið að eiga eins öflugt áhugaleikfélag og Vestmannaeyingar eiga. Það er því um að gera að drífa sig í leikhús um páskana.

Að endingu vil ég hrósa Stefáni Benedikt Vilhelmssyni, leikstjóra, öllum leikurunum, tæknifólki, búningahönnuðum, aðstoðarfólki en alls taka um 40 manns þátt í sýningunni, um 20 á sviði en einnig vinna margar hendur ýmis verk á bak við tjöldin. Að ógleymdri stjórn Leikfélags Vestmannaeyja.

Takk fyrir mig, kærlega.

 

Tryggvi Már Sæmundsson

 

Höfundur er ritstjóri Eyjar.net

Frumsýna söngleikinn Spamalot

Beitiland og hagaganga

kindur_tms
Sauðfé í Eyjum. Eyjar.net/Tryggvi Már

Búfjárhald, beitiland og hagaganga voru til umfjöllunar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í vikunni.

Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar lagði til á fundi ráðsins að hagaganga verði óheimil samkvæmt rauða svæðinu á afstöðumyndinni sem sjá má hér að neðan.

Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið samþykki erindið og felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs framgang málsins.

oheimilt_beitiland
Mynd/Vestmannaeyjabær

Fjölmargir leituðu að páskaeggjum

DSC_5708
Páskaeggjaleit Sjálfstæðisflokksins var afar vel sótt. Eyjar.net/Óskar P. Friðriksson

Fjölmennt var á Skansinum í dag þar sem leitað var að páskaeggjum á svæðinu. Það er Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum sem stendur fyrir viðburðinum ár hvert á skírdag.

Veðrið lék við leitarfólk og fjölmenntu barnafjölskyldur sérstaklega. Ljósmyndarar Eyjar.net voru á svæðinu og má sjá myndasyrpu þeirra hér að neðan.

Ingó í Alþýðuhúsinu – myndir

DSC_5637
Húsfyllir var í Alþýðuhúsinu í gær. Eyjar.net/Óskar Pétur

Ingó Veðurguð var með hörku gigg í Alþýðuhúsinu í gærkvöldi. Uppselt var á tónleikana og lék Ingó öll sín bestu lög í bland við gamla góða slagara. Á milli laga sagði Ingó skemmtilegar sögur, sem féllu vel í kramið.

Að sjálfsögðu var svo endað á þjóðhátíðarlaginu „Takk fyrir mig“ en það var tæpum þremur tímum eftir að tónleikarnir byrjuðu, en mikið stuð var í húsinu. Ljósmyndari Eyjar.net leit við í Alþýðuhúsinu í gærkvöldi.

Níu lundar til Englands

Mynd af Heimdalli, Loka, Gluggu og Vegg. Ljósmyndir/aðsendar

Líkt og kom fram hér á Eyjar.net í gær stendur til að flytja nokkra sjúka lunda frá sædýrasafni Sea Life Trust í Eyjum til Bretlands. Að sögn Þóru Gísladóttur, rekstrarstjóra Sea Life Trust í Vestmannaeyjum er verið að fara að flytja nokkra lunda til Cornwall í Englandi.

Höfum bara leyfi til að vera með ákveðin fjölda í athvarfinu okkar

„Í Cornwall er Selaathvarf í eigu Sea Life Trust og við vinnum mjög mikið og náið með þeim. Þau eru búin að útbúa glæsilegt útisvæði fyrir lundana sem eru að koma til þeirra og þeim á eflaust eftir að líða mjög vel þar.

Hugsunin er að þar sem við höfum bara leyfi til að vera með ákveðin fjölda af lundum í athvarfinu okkar og með tilkomu nýju lundanna sem komu til okkar eftir síðasta sumar kom upp sú staða að við erum búin að fylla þann kvóta. Sem þýðir það að þegar við fáum inn slasaðar lundapysjur næsta sumar þá getum við ekki tekið við þeim.

Því kom upp sú hugmynd að flytja lundana okkar yfir til vina okkar í Selaathvarfinu þar sem þau voru meira en lítið til í að taka við þeim. Útisvæðið er að verða klárt og er verið að leggja lokahönd á laugina þeirra og það bíða núna allir mjög spenntir eftir að fá þá til sín.“ segir Þóra.

Fimm fuglar eftir

Spurð um hvað eigi að flytja marga lunda út segir hún að það verði 9 lundar sendir út.

„Þeir hafa verið hjá okkur lengi og hafa myndað gott samfélag saman og því þótti ekki ráðlagt að stía þeim í sundur. Það eru þau: Þór, Freyja, Týr, Óðinn, Alma, Dísa, Stephen, Sigurbjörg og Karen sem fara út.“

Hvað verða þá margir eftir á safninu?

Það verða 5 fuglar eftir. Hann Moli, gleðigjafinn okkar, verður hjá okkur áfram. Fyrir þá sem ekki þekkja hann, þá er Moli stórskemmtileg langvía sem hefur það hlutverk að hjálpa starfsfólkinu að hafa hemil á lundahópnum okkar. Eða það er það sem Moli heldur að sé hans hlutverk. Einnig verða eftir lundarnir sem komu til okkar síðasta sumar þau Heimdallur, Loki, Glugga og Veggur. Ég hvet Eyjamenn til að koma og kynnast þeim.

Verða til frambúðar úti

Eiga þeir að vera þar eða stendur til að koma með þá aftur heim?

Lundarnir eiga eftir að verða þar til frambúðar. Þeir fá mun stærra svæði þarna úti og eiga eflaust eftir að spjara sig vel þarna. En við fáum reglulega fréttir af þeim og fáum að fylgjast með hvernig gengur og starfsfólkið fer reglulega út til að hjálpa ef þess er þörf og veita ráðgjöf.

Þarf mjög mörg leyfi

Þarf ekki leyfi fyrir slíka flutninga? Er búið að fá þau?

Jú það þarf mjög mörg leyfi og það er það sem við Courtney erum búnar að vera að vinna að síðustu mánuði.

Allir lundarnir voru örmerktir fyrir nokkrum dögum og við þurftum einnig að taka af þeim flensupróf og taka sýni fyrir Newcastle Disease. Dýralæknarnir okkar frá Selfossi, Sandra og Ásdís, voru svo frábærar að koma og aðstoða okkur við að gera heilsufarsskoðun á fuglunum þannig að núna eiga þau öll opinber heilbrigðisvottorð til að fara með út. Við höfum líka verið í góðu sambandi við MAST og fylgjum öllum leiðbeiningum frá þeim. Þau hafa sýnt okkur mikinn stuðning enda vilja allir að þetta gangi eins hratt og auðveldlega og hægt er. Lundarnir fara svo í síðustu heilsfarsskoðunina til þeirra á þriðjudaginn áður en við förum með þá í flug.

Náttúrustofnunin hefur gefið okkur útflutningsleyfi og mikinn stuðning og sendir liðinu okkar sínar bestu óskir. Einnig höfum við verið í samstarfi með TVG og Icelandair við að bóka flugið. Ég tala nú ekki um allt fólkið í Bretlandi sem er búið að vinna með okkur að því að tryggja að öllum reglugerðum sé fylgt og farið sé eftir leiðbeiningum. Við erum með sérfræðing í inn-og útflutningi dýra sem mun sækja lundana á flugvöllinn ásamt henni Emily okkar og þau keyra þeim í Selathvarfið í Cornwall. Þar verður tekið vel á móti þeim og bíða allir spenntir eftir nýju íbúunum.

Þóra hvetur alla til að koma við um páskana og kveðja lundana áður en þau halda af stað í ferðalagið. Hægt verður að fylgjast með þeim á facebooksíðu selaathvarfsins: https://www.facebook.com/cornishsealsanctuary.

lundar_sea_life_ads_min
Þór, Týr og Óðinn sem eru að fara með Mola

Lundar sendir til Bretlands í endurhæfingu

Frumsýna söngleikinn Spamalot

spamalot_verk_lv_fb
Ljósmyndir/Leikfélag Vestmannaeyja

Leikfélag Vestmannaeyja frumsýnir í kvöld söngleikinn Spamalot, en æft hefur verið af krafti undanfarnar vikur fyrir söngleikinn.

Fjallar verkið um leit Arthúrs konungs og riddara hringborðsins að hinu helga grali, en breska tón- og leikskáldið Eric Idle vann söngleikinn upp úr kvikmyndinni Monty Python and the Holy Grail árið 2004, en þá mynd gerði Eric einmitt árið 1975 ásamt félögum sínum í Monty Python-hópnum sem margir kannast við.

Verið sýnt við miklar vinsældir víða um heim

Er þráður söngleiksins gæddur einu víðfeðmasta hugarflugi sem um getur, þar sem miðaldamenningu er blandað við alls kyns vitleysisgang. Segir í erlendum ritdómi frá árum áður að „Kvikmyndin Monty Python and the Holy Grail noti óvænta rökfræði sem og óvænta atburði til að afhjúpa fáfræði mannkyns á miðöldum“. Hvort sem það stenst nú eða ekki. Annars, til gamans má geta þess að nafnið Spamalot kemur úr bíómyndinni þegar einn karakterinn segir; „I eat ham and jam and Spam a lot.“Þrátt fyrir ýmis furðulegheit hefur Spamalot verið sýnt við miklar vinsældir víða um heim og hlotið bæði Tony-verðlaunin og Drama Desk-verðlaunin sem besti söngleikur ársins 2005.

Alls taka um 40 manns þátt í sýningunni, um 20 á sviði en einnig vinna margar hendur á bak við tjöldin. Leikstjóri er Stefán B. Vilhelmsson. Það verður því gaman að sjá hvernig til tekst hjá Leikfélagi Vestmannaeyja.

Nældu þér í miða um páskana. Svona er sýningaprógrammið:

Frumsýning fimmtudag 28. mars UPPSELT
2.sýning föstudag 29. mars kl. 20:00
3.sýning laugardag 30. mars kl. 20:00
Miðasala í síma 852-1940
Miðasölusíminn opnar 27. mars kl. 16 og verður opin alla daga á milli kl. 16-20

spamalot_2_lv

Listamenn léku saman á Píanó

DSC_5604
Frá tónleikunum. Eyjar.net/Óskar P. Friðriksson

Eyjakonurnar Kittý Kovács og Guðný Charlotta Harðardóttir píanóleikarar héldu tónleika í safnaðarheimili Landakirkju í gærkvöldi.

Þar léku þær fjórhent á píanó verk eftir hin þekktu klassísku tónskáld Chopin, Schubert, Dvořák og Debussy. Samkvæmt tíðindamanni Eyjar.net voru hljómleikarnir stórgóðir þar sem 50 manns mættu og nutu tónverkana.

Áfram fimm ferðir á dag

herj_fani
Herjólfur. Eyjar.net/TMS

Herjólfur ohf. hefur gefið út siglingaáætlun út páskadag, áfram verða sigldar fimm ferðir á dag milli lands og Eyja.

Í tilkynningunni segir: Herjólfur siglir til Landeyjahafnar eftirfarandi áætlun út sunnudag.

Brottför frá Vestmannaeyjum kl. 07:00, 09:30, 17:00, 19:30, 22:00. Brottför frá Landeyjahöfn kl. 08:15, 10:45, 18:15, 20:45, 23:15.

Hvað varðar siglingar fyrir mánudag (1.apríl), verður gefin út tilkynning í síðasta lagi fyrir kl. 06:00 á mánudagsmorgun, segir í tilkynningu frá skipafélaginu.

Rasmus aftur til ÍBV

Rasmus hér með Elísu Viðarsdóttur og börnunum. Ljósmynd/ÍBV

Knattspyrnumaðurinn Rasmus Christiansen hefur gengið til liðs við ÍBV og skrifaði undir samning við knattspyrnudeild félagsins til loka þessa tímabils.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu ÍBV. Rasmus er ekki að koma í fyrsta skiptið til ÍBV en þessi 34 ára gamli miðvörður kom einnig til liðsins árið 2010, 20 ára gamall.

Rasmus lék 64 af 66 leikjum ÍBV árin 2010-2012, fyrsta árið lék Rasmus með Eiði Aroni Sigurbjörnssyni þar sem þeir mynduðu magnað miðvarðapar í ÍBV liði sem var einum sigri frá Íslandsmeistaratitli undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Öll árin sem Rasmus lék með ÍBV var 3. sætið niðurstaðan í deildinni þar sem hann var án alls vafa einn af bestu varnarmönnum efstu deildar.

Rasmus hélt til Noregs þar sem hann lék með Ull/Kisa eftir árin með ÍBV áður en leið hans lá aftur til Íslands. Hann gekk til liðs við bikarmeistara KR og lék með þeim árið 2015 áður en Valsmenn sóttu hann til erkifjenda sinna. Árin 2017 og 2018 varð Rasmus Íslandsmeistari með Valsliðinu og árið 2019 hjálpaði hann Fjölnismönnum að vinna sér sæti í efstu deild, þá á láni frá Valsmönnum. 2020 varð hann aftur Íslandsmeistari með Val og þá í lykilhlutverki þar sem hann lék alla 18 leiki liðsins.

Á síðasta ári lék Rasmus lykilhlutverk í sterku liði Aftureldingar sem endaði í öðru sæti Lengjudeildarinnar.

Við viljum bjóða Rasmus velkominn á nýjan leik til Vestmannaeyja og ríkir mikil ánægja innan félagsins með heimkomu hans en Rasmus á tvö börn með Elísu Viðarsdóttur, sem er ein af bestu knattspyrnukonum Vestmannaeyja fyrr og síðar, segir í tilkynningunni.