Fimmtudagur, mars 28, 2024
Heim Blogg

Fjölmargir leituðu að páskaeggjum

DSC_5708
Páskaeggjaleit Sjálfstæðisflokksins var afar vel sótt. Eyjar.net/Óskar P. Friðriksson

Fjölmennt var á Skansinum í dag þar sem leitað var að páskaeggjum á svæðinu. Það er Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum sem stendur fyrir viðburðinum ár hvert á skírdag.

Veðrið lék við leitarfólk og fjölmenntu barnafjölskyldur sérstaklega. Ljósmyndarar Eyjar.net voru á svæðinu og má sjá myndasyrpu þeirra hér að neðan.

Ingó í Alþýðuhúsinu – myndir

DSC_5637
Húsfyllir var í Alþýðuhúsinu í gær. Eyjar.net/Óskar Pétur

Ingó Veðurguð var með hörku gigg í Alþýðuhúsinu í gærkvöldi. Uppselt var á tónleikana og lék Ingó öll sín bestu lög í bland við gamla góða slagara. Á milli laga sagði Ingó skemmtilegar sögur, sem féllu vel í kramið.

Að sjálfsögðu var svo endað á þjóðhátíðarlaginu „Takk fyrir mig“ en það var tæpum þremur tímum eftir að tónleikarnir byrjuðu, en mikið stuð var í húsinu. Ljósmyndari Eyjar.net leit við í Alþýðuhúsinu í gærkvöldi.

Níu lundar til Englands

Mynd af Heimdalli, Loka, Gluggu og Vegg. Ljósmyndir/aðsendar

Líkt og kom fram hér á Eyjar.net í gær stendur til að flytja nokkra sjúka lunda frá sædýrasafni Sea Life Trust í Eyjum til Bretlands. Að sögn Þóru Gísladóttur, rekstrarstjóra Sea Life Trust í Vestmannaeyjum er verið að fara að flytja nokkra lunda til Cornwall í Englandi.

Höfum bara leyfi til að vera með ákveðin fjölda í athvarfinu okkar

„Í Cornwall er Selaathvarf í eigu Sea Life Trust og við vinnum mjög mikið og náið með þeim. Þau eru búin að útbúa glæsilegt útisvæði fyrir lundana sem eru að koma til þeirra og þeim á eflaust eftir að líða mjög vel þar.

Hugsunin er að þar sem við höfum bara leyfi til að vera með ákveðin fjölda af lundum í athvarfinu okkar og með tilkomu nýju lundanna sem komu til okkar eftir síðasta sumar kom upp sú staða að við erum búin að fylla þann kvóta. Sem þýðir það að þegar við fáum inn slasaðar lundapysjur næsta sumar þá getum við ekki tekið við þeim.

Því kom upp sú hugmynd að flytja lundana okkar yfir til vina okkar í Selaathvarfinu þar sem þau voru meira en lítið til í að taka við þeim. Útisvæðið er að verða klárt og er verið að leggja lokahönd á laugina þeirra og það bíða núna allir mjög spenntir eftir að fá þá til sín.“ segir Þóra.

Fimm fuglar eftir

Spurð um hvað eigi að flytja marga lunda út segir hún að það verði 9 lundar sendir út.

„Þeir hafa verið hjá okkur lengi og hafa myndað gott samfélag saman og því þótti ekki ráðlagt að stía þeim í sundur. Það eru þau: Þór, Freyja, Týr, Óðinn, Alma, Dísa, Stephen, Sigurbjörg og Karen sem fara út.“

Hvað verða þá margir eftir á safninu?

Það verða 5 fuglar eftir. Hann Moli, gleðigjafinn okkar, verður hjá okkur áfram. Fyrir þá sem ekki þekkja hann, þá er Moli stórskemmtileg langvía sem hefur það hlutverk að hjálpa starfsfólkinu að hafa hemil á lundahópnum okkar. Eða það er það sem Moli heldur að sé hans hlutverk. Einnig verða eftir lundarnir sem komu til okkar síðasta sumar þau Heimdallur, Loki, Glugga og Veggur. Ég hvet Eyjamenn til að koma og kynnast þeim.

Verða til frambúðar úti

Eiga þeir að vera þar eða stendur til að koma með þá aftur heim?

Lundarnir eiga eftir að verða þar til frambúðar. Þeir fá mun stærra svæði þarna úti og eiga eflaust eftir að spjara sig vel þarna. En við fáum reglulega fréttir af þeim og fáum að fylgjast með hvernig gengur og starfsfólkið fer reglulega út til að hjálpa ef þess er þörf og veita ráðgjöf.

Þarf mjög mörg leyfi

Þarf ekki leyfi fyrir slíka flutninga? Er búið að fá þau?

Jú það þarf mjög mörg leyfi og það er það sem við Courtney erum búnar að vera að vinna að síðustu mánuði.

Allir lundarnir voru örmerktir fyrir nokkrum dögum og við þurftum einnig að taka af þeim flensupróf og taka sýni fyrir Newcastle Disease. Dýralæknarnir okkar frá Selfossi, Sandra og Ásdís, voru svo frábærar að koma og aðstoða okkur við að gera heilsufarsskoðun á fuglunum þannig að núna eiga þau öll opinber heilbrigðisvottorð til að fara með út. Við höfum líka verið í góðu sambandi við MAST og fylgjum öllum leiðbeiningum frá þeim. Þau hafa sýnt okkur mikinn stuðning enda vilja allir að þetta gangi eins hratt og auðveldlega og hægt er. Lundarnir fara svo í síðustu heilsfarsskoðunina til þeirra á þriðjudaginn áður en við förum með þá í flug.

Náttúrustofnunin hefur gefið okkur útflutningsleyfi og mikinn stuðning og sendir liðinu okkar sínar bestu óskir. Einnig höfum við verið í samstarfi með TVG og Icelandair við að bóka flugið. Ég tala nú ekki um allt fólkið í Bretlandi sem er búið að vinna með okkur að því að tryggja að öllum reglugerðum sé fylgt og farið sé eftir leiðbeiningum. Við erum með sérfræðing í inn-og útflutningi dýra sem mun sækja lundana á flugvöllinn ásamt henni Emily okkar og þau keyra þeim í Selathvarfið í Cornwall. Þar verður tekið vel á móti þeim og bíða allir spenntir eftir nýju íbúunum.

Þóra hvetur alla til að koma við um páskana og kveðja lundana áður en þau halda af stað í ferðalagið. Hægt verður að fylgjast með þeim á facebooksíðu selaathvarfsins: https://www.facebook.com/cornishsealsanctuary.

lundar_sea_life_ads_min
Þór, Týr og Óðinn sem eru að fara með Mola

Lundar sendir til Bretlands í endurhæfingu

Frumsýna söngleikinn Spamalot

spamalot_verk_lv_fb
Ljósmyndir/Leikfélag Vestmannaeyja

Leikfélag Vestmannaeyja frumsýnir í kvöld söngleikinn Spamalot, en æft hefur verið af krafti undanfarnar vikur fyrir söngleikinn.

Fjallar verkið um leit Arthúrs konungs og riddara hringborðsins að hinu helga grali, en breska tón- og leikskáldið Eric Idle vann söngleikinn upp úr kvikmyndinni Monty Python and the Holy Grail árið 2004, en þá mynd gerði Eric einmitt árið 1975 ásamt félögum sínum í Monty Python-hópnum sem margir kannast við.

Verið sýnt við miklar vinsældir víða um heim

Er þráður söngleiksins gæddur einu víðfeðmasta hugarflugi sem um getur, þar sem miðaldamenningu er blandað við alls kyns vitleysisgang. Segir í erlendum ritdómi frá árum áður að „Kvikmyndin Monty Python and the Holy Grail noti óvænta rökfræði sem og óvænta atburði til að afhjúpa fáfræði mannkyns á miðöldum“. Hvort sem það stenst nú eða ekki. Annars, til gamans má geta þess að nafnið Spamalot kemur úr bíómyndinni þegar einn karakterinn segir; „I eat ham and jam and Spam a lot.“Þrátt fyrir ýmis furðulegheit hefur Spamalot verið sýnt við miklar vinsældir víða um heim og hlotið bæði Tony-verðlaunin og Drama Desk-verðlaunin sem besti söngleikur ársins 2005.

Alls taka um 40 manns þátt í sýningunni, um 20 á sviði en einnig vinna margar hendur á bak við tjöldin. Leikstjóri er Stefán B. Vilhelmsson. Það verður því gaman að sjá hvernig til tekst hjá Leikfélagi Vestmannaeyja.

Nældu þér í miða um páskana. Svona er sýningaprógrammið:

Frumsýning fimmtudag 28. mars UPPSELT
2.sýning föstudag 29. mars kl. 20:00
3.sýning laugardag 30. mars kl. 20:00
Miðasala í síma 852-1940
Miðasölusíminn opnar 27. mars kl. 16 og verður opin alla daga á milli kl. 16-20

spamalot_2_lv

Listamenn léku saman á Píanó

DSC_5604
Frá tónleikunum. Eyjar.net/Óskar P. Friðriksson

Eyjakonurnar Kittý Kovács og Guðný Charlotta Harðardóttir píanóleikarar héldu tónleika í safnaðarheimili Landakirkju í gærkvöldi.

Þar léku þær fjórhent á píanó verk eftir hin þekktu klassísku tónskáld Chopin, Schubert, Dvořák og Debussy. Samkvæmt tíðindamanni Eyjar.net voru hljómleikarnir stórgóðir þar sem 50 manns mættu og nutu tónverkana.

Áfram fimm ferðir á dag

herj_fani
Herjólfur. Eyjar.net/TMS

Herjólfur ohf. hefur gefið út siglingaáætlun út páskadag, áfram verða sigldar fimm ferðir á dag milli lands og Eyja.

Í tilkynningunni segir: Herjólfur siglir til Landeyjahafnar eftirfarandi áætlun út sunnudag.

Brottför frá Vestmannaeyjum kl. 07:00, 09:30, 17:00, 19:30, 22:00. Brottför frá Landeyjahöfn kl. 08:15, 10:45, 18:15, 20:45, 23:15.

Hvað varðar siglingar fyrir mánudag (1.apríl), verður gefin út tilkynning í síðasta lagi fyrir kl. 06:00 á mánudagsmorgun, segir í tilkynningu frá skipafélaginu.

Rasmus aftur til ÍBV

Rasmus hér með Elísu Viðarsdóttur og börnunum. Ljósmynd/ÍBV

Knattspyrnumaðurinn Rasmus Christiansen hefur gengið til liðs við ÍBV og skrifaði undir samning við knattspyrnudeild félagsins til loka þessa tímabils.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu ÍBV. Rasmus er ekki að koma í fyrsta skiptið til ÍBV en þessi 34 ára gamli miðvörður kom einnig til liðsins árið 2010, 20 ára gamall.

Rasmus lék 64 af 66 leikjum ÍBV árin 2010-2012, fyrsta árið lék Rasmus með Eiði Aroni Sigurbjörnssyni þar sem þeir mynduðu magnað miðvarðapar í ÍBV liði sem var einum sigri frá Íslandsmeistaratitli undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Öll árin sem Rasmus lék með ÍBV var 3. sætið niðurstaðan í deildinni þar sem hann var án alls vafa einn af bestu varnarmönnum efstu deildar.

Rasmus hélt til Noregs þar sem hann lék með Ull/Kisa eftir árin með ÍBV áður en leið hans lá aftur til Íslands. Hann gekk til liðs við bikarmeistara KR og lék með þeim árið 2015 áður en Valsmenn sóttu hann til erkifjenda sinna. Árin 2017 og 2018 varð Rasmus Íslandsmeistari með Valsliðinu og árið 2019 hjálpaði hann Fjölnismönnum að vinna sér sæti í efstu deild, þá á láni frá Valsmönnum. 2020 varð hann aftur Íslandsmeistari með Val og þá í lykilhlutverki þar sem hann lék alla 18 leiki liðsins.

Á síðasta ári lék Rasmus lykilhlutverk í sterku liði Aftureldingar sem endaði í öðru sæti Lengjudeildarinnar.

Við viljum bjóða Rasmus velkominn á nýjan leik til Vestmannaeyja og ríkir mikil ánægja innan félagsins með heimkomu hans en Rasmus á tvö börn með Elísu Viðarsdóttur, sem er ein af bestu knattspyrnukonum Vestmannaeyja fyrr og síðar, segir í tilkynningunni.

Lundar sendir til Bretlands í endurhæfingu

IMG_9464
Lundi á Sea Life safninu í Eyjum. Eyjar.net/TMS

Sædýrasafnið Sea Life Trust hefur undanfarin ár verið með nokkra lifandi lunda á safninu auk þess sem að safnið stendur að björgunarstarfi á lundum og lundapysjum.

Samkvæmt heimildum Eyjar.net stendur til að flytja nokkra þeirra úr landi. Skömmu eftir að Eyjar.net sendi Þóru Gísladóttur, rekstrarstjóra Sea Life Trust fyrirspurn vegna málsins birtist á facebook-síðu safnsins tilkynning þess efnis. Þar er það staðfest að til standi að flytja lundana út.

Fram kemur í færslunni að á þessu síðasta lundatímabili hafi starfsfólk Sea Life bjargað meira en 60 fuglum, þar af þurftu 4 af þessum sjúku fuglum varanlegt heimili vegna langvarandi sjúkdóma. „Til að geta haldið áfram þessu mikilvæga björgunarstarfi sendum við nokkra af ósleppanlegum lundum til  Cornish Seal Sanctuary.“ En það eru góðgerðarsamtök (einnig undir Sea Life Trust) sem aðalega eru í að bjarga selum við Bretland.

„Við erum mjög spennt að sjá lundana halda áfram með breska teyminu! ​Vissir þú að einn af algengustu áverkunum meðal lunda okkar er blinda vegna augnmissis/meiðsla? Þessi mynd er af Ölmu sem tekur sér blund, með óhreyfanlegt auga hennar snýr að myndavélinni.“ segir m.a. í færslunni sem sjá má hér að neðan.

Eins og áður segir hefur Eyjar.net sent Þóru Gísladóttur, rekstrarstjóra safnsins spurningar vegna flutninga fuglana og verður fróðlegt að fræðast nánar um þá.

5,3 milljarða hagnaður Ísfélagsins

DSC_6586_gudbj_matt_gunnl_saevar_l
Guðbjörg Matthíasdóttir, stærsti eigandi Ísfélagsins og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins ræða hér við Magnús Harðarsson forstjóra Kauphallarinnar. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Ársreikningur Ísfélagsins var kynntur í dag, en óhætt er að segja að árið í fyrra hafi verið viðburðarríkt hjá félaginu.

Hæst ber að nefna sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. en sameinað félag var í kjölfarið skráð á markað. Heildarafli skipanna var rúmlega 151 þúsund tonn og var bolfiskafli skipa félagsins  tæp 24 þúsund tonn. Framleiddar afurðir voru um 70 þúsund tonn á árinu.

Eignir upp á tæpa 110 milljarða

Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi ársins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2023 (137,98) voru rekstrartekjur félagsins 26,8 milljarðar íslenskra króna.

Hagnaður ársins nam 5,3 milljörðum króna og var EBITDA félagsins 9,8 milljarður króna.

Eignir félagsins í lok árs 2023 eru færðar í íslenskar krónur á genginu (136,2). Í lok árs 2023 voru heildareignir félagsins 109,6 milljarðar króna. Fastafjármunir námu 90,4 milljörðum króna og veltufjármunir 19,2 milljörðum króna. Eigið fé í lok ársins 2023 voru 75,5 milljarðar króna og voru skuldir og skuldbindingar 34,1 milljarðar króna.

Þakkar þátttakendum í útboðinu

Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélagsins segir að árið 2023 hafi verið gott og viðburðarríkt ár í langri sögu félagsins.

„Í upphafi ársins lá fyrir ákvörðun stjórna Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. að stefna að sameiningu félaganna og skráningu á markað. Félögin voru sameinuð miðað við 30. júní 2023 og nafni félagsins breytt í Ísfélag hf.

Félagið var þann 8. desember 2023 skráð á markað á aðallista Nasdaq á Íslandi. Í hlutafjárútboðinu sem var haldið í aðdraganda skráningarinnar var mikil eftirspurn eftir hlutabréfum í félaginu og er sérstök ástæða til að þakka þátttakendum í útboðinu og hluthöfum fyrir það mikla traust sem þeir hafa á félaginu. Við hjá Ísfélaginu erum ánægð að vera komin í hóp frábærra fyrirtækja sem eru skráð á markað á aðallista Nasdaq á Íslandi.

Reksturinn gekk vel á árinu

Loðnuvertíðin var góð, veiðin gekk vel, bæði aflabrögð og vinnsla. Framleiðsla loðnuhrogna var mikil á árinu, m.a. vegna þess að aflaheimildir voru auknar verulega þegar langt var liðið á vertíðina. Vegna þessa fór framboð á hrognum á Íslandi langt fram úr eftirspurn sem olli verðlækkun og birgðasöfnun.

Síldarveiðar gengu afar vel á árinu, veiðin var góð og stutt á miðin og fiskurinn góður.

Ísfélagið veiddi um 127 þúsund tonn af uppsjávarfiski á árinu og framleiddi um 32 þúsund tonn af frystum afurðum og 29 þúsund tonn samtals af mjöli og lýsi.

Verð á uppsjávarafurðum, fyrir utan loðnuhrognum, var gott, hvort sem um var að ræða frosnar afurðir eða mjöl og lýsi.

Bolfiskafli skipa félagsins var um 24 þúsund tonn á árinu 2023 og er þá afli skipa Ramma fyrstu sex mánuði ársins meðtalinn.

Framleiðsla afurða í bolfiski var um 14,5 þúsund tonn. Vinnsla á afurðum gekk vel bæði á landi og um borð í frystitogaranum Sólbergi. Verð á bolfiskafurðum lækkaði á árinu en hefur nú hækkað aftur í flestum afurðum.

Umtalsverðar fjárfestingar

Umtalsverðar fjárfestingar voru á árinu 2023. Ný loðnuhrognavinnsla í Vestmannaeyjum var tekin í notkun. Í mars keypti félagið 29% hlut í eignarhaldsfélaginu Austur Holding, sem er stærsti eigandi í Ice Fish Farm, sem er laxeldisfyrirtæki á Austurlandi. Kaupin á hlutnum í Austur Holding jafngilda 16,4% hlut í Ice Fish Farm. Nýr togari, Sigurbjörg, er í smíðum í Tyrklandi sem von er á til landsins á næstunni. Sigurbjörg mun koma í stað eldri skipa félagsins sem verða seld eða lagt. Félagið fjárfesti einnig í vinnslubúnaði í uppsjávar- og mjölvinnslum félagsins.“ segir Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélagsins, og hrósaði hann og þakkaði reynslumiklum og öflugum hópi starfsmanna til sjós og lands fyrir samstarfið og frábæran árangur á árinu.

Aðalfundur Ísfélags hf. verður haldinn miðvikudaginn 17. apríl nk.

stebbi_fridriks
Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins. Eyjar.net/TMS

Ísfélag hf. komið á Aðalmarkað

Sá fréttirnar og hafði samband!

Skjáskot/Lotto.is

Lottóvinningshafinn sem var einn með allar tölur réttar um síðustu helgi er fundinn og er fyrir vikið hátt í 9 milljón krónum ríkari.

Sú heppna hafði keypt miðann í appinu en var aðeins með heimasíma skráðan og úrelt netfang. Þegar fréttir tóku að birtast um leitina,

Kíkti hún líkt og fleiri því í appið til að skoða miðann sinn og sá þar góðu fréttirnar og hafði umsvifalaust samband við skrifstofu Íslenskrar getspár.

Vinningshafinn er að vonum lukkuleg með allar milljónirnar og hefur þegar uppfært allar sínar upplýsingar í Lottóappinu og hvetur aðra spilara til að gera slíkt hið sama, segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Annar býr erlendis en hinn ófundinn