Þriðjudagur, apríl 16, 2024
Heim Blogg

ÍBV í undanúrslit

handb_sunna_ibv_2022_opf
Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Kvennalið ÍBV tryggði sér í kvöld sæti í undanúr­slit­um úr­slita­keppni Íslands­mótsins í hand­knatt­leik.

Stelpurnar gerðu góða ferð í borgina og sigruðu ÍR, 22:18. ÍBV vann því ein­vígið 2:0 og mæt­ir  Val í undanúr­slit­um.

Þóra Björg Stef­áns­dótt­ir skoraði flest mörkin hjá ÍBV í kvöld, fimm talsins. Næst markahæst var Birna Berg Har­alds­dótt­ir með fjög­ur mörk. Þá varði Marta Wawrzy­kowska níu skot í markinu. Glæsileg frammistaða liðsins.

Gunnlaugur hættir í stjórn Ísfélagsins

DSC_6575
Gunn­laug­ur Sæv­ar Gunn­laugs­son, hér ásamt Guðbjörgu Matthíasdóttur, stærsta hluthafa Ísfélagsins. Eyjar.net/Óskar P. Friðriksson

Aðalfundur Ísfélagsins verður haldinn næstkomandi miðvikudag. Fimm hafa boðið sig fram til setu í aðal­stjórn fé­lags­ins og verður því sjálf­kjörið í stjórn­ina.

Athygli vekur að núverandi stjórn­ar­formaður,­ Gunn­laug­ur Sæv­ar Gunn­laugs­son gef­ur ekki kost á sér til áfram­hald­andi stjórn­ar­setu. Gunn­laug­ur Sæv­ar hef­ur átt sæti í stjórn­inni frá ár­inu 1991.

Sig­ríður Vala Hall­dórs­dótt­ir, stjórn­ar­maður í Viðskiptaráði Íslands og fram­kvæmda­stjóri fjár­mála- og upp­lýs­inga­tækni hjá Sjóvá, tek­ur sæti í stjórn­inni í stað Gunn­laugs, en framboðsfrestur er útrunninn. Samkvæmt samþykktum félagsins kýs aðalfundur allt að sjö menn í stjórn. Fimm einstaklingar eru í kjöri til aðalstjórnar og er því sjálfkjörið í stjórn.

Í kjöri til stjórnar eru: Einar Sigurðsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar Sigvaldason, Steinunn H. Marteinsdóttir og Sigríður Vala Halldórsdóttir.

Nánar um aðalfund Ísfélagsins.

5,3 milljarða hagnaður Ísfélagsins

Höldum áfram!

meirihlutinn_2022
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Íris Róbertsdóttir, Páll Magnússon, Helga Jóhanna Harðardóttir og Njáll Ragnarsson. Eyjar.net/ÓPF

Í september 2021 skrifuðu  forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og bæjarstjóri, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, undir sameiginlega viljayfirlýsingu sem fól m.a. í sér kaup á listaverki í tilefni 50 ára goslokaafmælis. Á þeim grundvelli lagði forsætisráðherra fram þingsályktunartillögu um sama efni þann 13. júní 2022 sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi. Síðan þá hafa verið teknar á annan tug ákvarðana í bæjarstjórn, bæjarráði og í umhverfis og skipulagsráði varðandi verkefnið. Allar ákvarðanir sem teknar hafa verið í bæjarkerfinu hafa verið samþykktar samhljóða af öllum fulltrúum þeirra þriggja framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn. Þar með talin ákvörðun í bæjarstjórn haustið 2022 um að í fjárhagsáætlun fyrir 2023 var gert ráð fyrir 50 m.kr. í þessu skyni.

Fljótlega kom á daginn að af ýmsum ástæðum – ekki síst fyrir milligöngu Eyjamannsins Martins Eyjólfssonar, þáverandi sendiherra Íslands í Þýskalandi –  hafði kviknað mikill áhugi hjá einum þekktasta og eftirsóttasta myndlistarmanni samtímans á þessu verkefni. Þetta er Ólafur Elíasson, sem á Íslandi er þekktastur fyrir ytra byrðið á Hörpunni.

Virðing fyrir náttúrunni – engin umhverfisspjöll

Samið var við listamanninn um ákveðna undirbúningsvinnu og í framhaldi af því kynnti hann hugmyndir sínar fyrir málsaðilum, sem meðal annars fela í sér hönnun og uppbyggingu á nýjum göngustíg umhverfis gíginn í Eldfelli. Stígurinn verður hluti af listaverkinu og kemur í stað þeirra slóða sem fyrir eru. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að það er ekkert sem bendir til þess að ásýnd Eldfells eða náttúrunnar í kring verði raskað með óafturkræfum hætti enda á endanleg hönnun og útlit umrædds göngustígs og listaverksins alls eftir að fara í gegnum skipulagsferli áður en framkvæmdaleyfi verða gefin út. Og það er rétt að taka sérstaklega fram að þær furðumyndir sem birst hafa í tengslum við fréttir af þessu máli eiga auðvitað ekkert skylt við veruleikann, eru hreinn tilbúningur og hafa ekkert með verk listamannsins að gera.

Fjárhagsramminn tryggður

Eftir því sem verkinu hefur miðað skýrðust línur varðandi hugmyndir listamannsins og þar með áætlaðan kostnað við framkvæmdina í heild, sem nú stendur í um 200 m.kr. Nýverið var tryggður fjárhagslegur rammi utan um framkvæmdina, m.a. fyrir atbeina menningar- og viðskiptaráðuneytisins, án þess að gert sé ráð fyrir að upphafleg skuldbinding Vestmannaeyjabæjar breytist, þ.e. hún er áfram 50 milljónir eða um 25% af kostnaðinum. Sömuleiðis liggur nú fyrir, óundirritaður, endanlegur samningur við listamannin.

Ótæk tillaga

Það er í þessari stöðu málsins – allar ákvarðanir verið teknar samhljóða yfir 30 mánaða tímabil; búið að tryggja fjárhagsrammann  og ekkert eftir nema að undirrita samninginn við listamanninn og setja verkefnið á fulla ferð – að fram kemur í bæjarstjórn Vestmannaeyja tillaga um setja málið í íbúakosningu. Slík kosning fer venjulega fram ÁÐUR en ákvarðanir eru teknar en ekki EFTIR að allt er um garð gengið. Hér má nefna til samanburðar tillögu sem meirihlutinn lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi um íbúakosningu varðandi hugsanlega nýtingu á svæði í miðbænum á eða undir nýja hrauninu sem er nefnt M2 í skipulagi. Þá verða íbúar spurðir ÁÐUR en farið verður að skipuleggja svæðið hvort þeir vilja halda hrauninu þarna ósnertu eða taka hluta af því undir byggð. Þannig á að standa að íbúakosningu. Fá fram vilja bæjarbúa í stórum og oft tilfinningatengdum málum ÁÐUR en ákvarðanir eru teknar. Þar fyrir utan var tillaga minnihlutans ótæk vegna þess að það vantaði spurninguna. Um hvað átti að kjósa? Upphaflegu viljayfirlýsinguna og fjárveitinguna eða listaverkið sjálft? Eða allar ákvarðanirnar sem voru teknar þar á milli?

Það var engin leið önnur en að fella þessa tillögu.

Áfram gakk!

Við undirrituð sem myndum meirihlutann í bæjarstjórn erum sannfærð um að ákvörðunin um þetta listaverk er mikið heillaspor fyrir Vestmannaeyjar. Verk af þessari stærðargráðu og eftir þennan listamann mun áreiðanlega vekja heimsathygli eins og öll verk hans af þessu tagi hafa gert um margra ára skeið víða um heim. Þetta mun verða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og gesti og verða eitt af kennileitum Eyjanna til langrar framtíðar. Við höldum stolt áfram!

 

Helga Jóhanna Harðardóttir

Íris Róbertsdóttir

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Njáll Ragnarsson

Páll Magnússon

Stígandi áhyggjur listaverks

Eythor_hardar_opf
Eyþór Harðarson. Eyjar.net/ÓPF

Skipulagsmál hafa verið fyrirferðamikil í stjórnsýslu sveitarfélaga til langs tíma. Það eru vonbrigði fyrir okkur í minnihlutanum þegar sjónarmiðin sem hafa gilt um skipulagsmál í sveitarfélaginu, eigi ekki að gilda um göngustígagerð í Eldfelli.

Aðdragandinn

Ég verð að viðurkenna mikla meðvirkni sem ég féll í sumarið 2022 þegar hugmyndin að listaverkinu kom fyrst fram í bæjarráði í tilefni 50 ára goslokaafmælis sem átti að halda uppá ári síðar. Forsætisráðherra þáverandi ásamt góðu fólki tengt Eyjunum hafði komið heimsfrægum listamanni í kynni við Eldfellið og hugmynd kveiknaði að listaverki sem myndi verða vígt á áðurnefndu goslokaafmæli.

Framkvæmdin

Þá var lýst fyrir mér hugmynd að þessu verki, útbúið yrði svæði í hrauninu þar sem frá ákveðnu sjónarhorni yrði göngustígur í Eldfelli hluti af listaverkinu.

Þegar ég spurði hvernig þetta listaverk myndi líta út, þá var svarið að listaverk séu almennt bara frumsýnd einu sinni. Bæjarfulltrúar í Vestmannaeyjum kæmu ekki að hönnun listaverksins.

Þar sem að ég er ekki þekktur fyrir að vera gleðispillir, þá tók ég þann pólinn í hæðina að vera ekki á móti þessu verkefni og samþykkti eins og allir bæjarfulltrúar að Vestmannaeyjabær leggði til 50 milljónir í þetta listaverk sem  til stóð að kostaði 120 milljónir. Ríkið kæmi með mismuninn.

Þegar nær dróg hátíðardagskrá í kringum goslokaafmælið þá varð ljóst að listaverkið yrði ekki tilbúið eins og til stóð á réttum tíma, og í raun vildi maður ekkert vera að forvitnast of mikið þar sem listaverk eru bara frumsýnd einu sinni.

Tímaseinkun og óvissan

Þegar við áttum okkur á því nú fyrir stuttu að engar upplýsingar lágu fyrir um tímasetningu á framkvæmd og hvað þá þeirri ásýnd sem listaverkið myndi hafa á Eldfellið, þá fannst okkur bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins undir forystu Margrétar Rósar Ingólfsdóttur tímabært að staldra við og fá nánari skýringar á þeim hluta listaverksins sem göngustígar í Eldfelli áttu að tilheyra.

Eftir að tillögu okkar var vísað í bæjarráð svo málið fengi frekari meðferð,  þá kom lítið nýtt fram þar annað en að engar upplýsingar væru fáanlegar um ásýnd eða gerð göngustíga í Eldfelli af hálfu listamannsins – og íbúakosning jafngilti stöðvun á verkefninu.

Staðreyndin

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ekki haft áhuga á því að tala fyrir því að stöðva framkvæmd þessa verkefnis, einungis viljum við fá að sjá hve umfangsmikið inngrip er í náttúru Eldfells og leyfa bæjarbúum ákveða framhaldið. Það er sorglegt að hlusta á málflutning meirihlutans í þessu máli og tilraunir þeirra til að afvegaleiða umræðuna.

 

Eyþór Harðarson.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.

 

Stelpurnar mæta ÍR á útivelli

DSC_5134
Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Úrslitakeppni Olísdeildar kvenna heldur áfram í kvöld. Klukkan 19.40 mætast ÍR og ÍBV í Skógarseli.

ÍBV sigraði fyrsta leikinn örugglega, 30-20 og leiða því einvígið. Með sigri í kvöld slá þær ÍR út, en ef ÍR sigrar þarf oddaleik í Eyjum. Leikurinn verður í beinni á Sjónvarpi Símans.

Ísfélagið og Herjólfur ætla að bjóða upp á fría rútuferð og Herjólfsferð á leikinn. Farið verður með 14:30 ferðinni og er skráning og nánari upplýsingar hér.

Leikir dagsins:

mán. 15. apr. 24 18:00 1 TM Höllin Stjarnan – Haukar
mán. 15. apr. 24 19:40 1 Skógarsel ÍR – ÍBV

ÍBV í undanúrslit

Frá leik ÍBV og Hauka fyrr í vetur. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Íslandsmeistarar ÍBV eru komnir í undanúr­slit Íslands­móts karla í hand­bolta eft­ir öruggan sig­ur á Hauk­um á Ásvöll­um í dag. Eyjamenn sigruðu því einvígið 2-0 og mæta aft­ur í Hafn­ar­fjörðinn í undanúrslitum – þá gegn deild­ar­meist­ur­um FH.

ÍBV var þremur mörkum yfir í leikhléi, 17:14, en eftir fimm mínútur í síðari hálfleik var munurinn orðinn sex mörk, 22:16. Lokatölur í Hafnarfirði í dag voru 37:31. Glæsileg frammistaða Eyjaliðsins sem fékk góðan stuðning á pöllunum.

Mörk ÍBV: Gauti Gunnarsson 11, Daniel Esteves Vieira 6, Nökkvi Snær Óðinsson 6, Elmar Erlingsson 5/3, Dagur Arnarsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 4, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 12.

Áforma miðsvæði undir hrauni

Uppgröfur
Svona gæti svæðið litið út í upphafi moksturs á um 700 þúsund rúmmetrum af hrauni. Samsett mynd/Eyjar.net

Á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn sl. var framtíðaruppbygging og lóðaframboð til umfjöllunar. Um er að ræða 3,4 hektara svæði sem ætlað er til miðbæjarstarfsemi. 

Kanna hug íbúa með íbúakosningu

Stefnt verður að íbúakosningu samhliða næstu alþingiskosningum þar sem kannaður verður hugur íbúa hvort hefja skuli vinnu við að byggja upp þróunarsvæðið. 

Í gildandi aðalskipulagi er svæði – Nýja hraun þróunarsvæði (M2) – þar kemur m.a. fram að “Miðsvæði þar sem áformað er að byggja aftur upp á svæði sem fór undir hraun í gosinu 1973. Svæðið er merkt sem þróunarsvæði og verður unnið að því á skipulagstímabilinu að móta uppbyggingaráform frekar. Möguleikar til landmótunar eru opnir en í þeim getur falist að landið verði stallað á einhvern hátt og að eitthvað af efni yrði nýtt til efnistöku“. 
Í ljósi þess hversu takmarkað landsvæði sveitarfélagsins er þá er lagt til að kanna hug íbúa, hvort hefja skuli vinnu við að byggja upp þróunarsvæðið M2 (samkvæmt mynd) sem fór undir hraun í gosinu árið 1973 eða ekki. Íbúakosning verði framkvæmd samkvæmt reglugerð 0922/2023 og 60 gr. samþykktar Vestmannaeyjabæjar áður en lagt er af stað í skipulagsvinnuna en ekki á miðri leið eða að henni lokinni. 
Stefnt er að því að íbúakosningin fari fram samhliða næstu alþingiskosningum. 

Minnihlutinn ósáttur

Minnihlutinn var ósáttur við vinnubrögðin þar sem tillögurnar hafi aldrei komið fyrir augu bæjarfulltrúa né fengið umfjöllun í fagráðum bæjarins. 

Í ljósi þess að þær tillögur sem hér eru bornar fram hafa aldrei áður komið fyrir augu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og hafa ekki fengið umfjöllun í viðeigandi fagráði, óskum við eftir því að bæjarfulltrúar fái nánari kynningu á umræddum tillögum en að þeirri kynningu lokinni leggjumst við ekki gegn því að síðari tillagan fari í íbúakosningu. Leggjum við því til að málinu verði frestað til næsta fundar bæjarstjórnar. 

Samþykkt að fresta afgreiðslu málsins

Meirihluti H- og E- lista urðu við beiðni minnihlutans og var málinu frestað svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins nái að kynna sér málið betur. Eyþór Harðarson, oddviti minnihlutans fagnaði niðurstöðu á atkvæðagreiðslunni með tillögu Sjálfstæðisflokksins. „Ég held við séum öll sammála um það að við förum vandlega í gegnum þetta og afgreiðum á næsta bæjarstjórnarfundi.“

hraun-mynd-1068x601
Margir voru ósáttir við áform H-listans ári 2022 um að moka burt hrauninu. H-listinn lofaði íbúakosningu í kjölfarið.

Ekki moka burt hrauninu!

Staðfest afstöðuleysi um hraunið

Nýja hraunið og möguleikar til framtíðar

Spennandi tímar framundan hjá körlum í skúrum

DSC_6758
Farið yfir næstu skref. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Verkefnið „Karlar í skúrum“ er enn á fullu hjá Lionsmönnum. Í síðustu viku gerðu þeir félagar ganginn tilbúinn fyrir málarann sem mun í framhaldinu sparsla og mála. Í kjölfarið voru næstu skref skipulögð, m.a. hvar hvert og eitt verkfæri yrði staðsett í skúrnum.

Karlar í skúrum er úrræði sem gefur karlmönnum tækifæri til þess að hittast og vinna að sameiginlegum og eða eigin verkefnum á sínum eigin hraða. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karla er höfð í fyrirrúmi og þeir geti haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega. Megináhersla er lögð á vinnu í tré og hvers konar annað handverk og er tilgangurinn að auka lífsgæði gegnum handverk, tómstundir og ekki síst samveru.

Verkefnið er fyrir karlmenn 18 ára og eldri og er hugmyndin að reyna að ná til karlmanna sem ekki geta stundað almenna vinnu, eru búnir að minnka við sig vinnu eða komnir á eftirlaun. Oftast eru menn búnir að minnka við sig húsnæði og hafa þá ekki aðstöðu fyrir föndur eða þessa háttar. Þá myndast oft tómarúm og margir eiga erfitt með að finna sér einhverja rútínu eða verkefni til að geta gengið að og fengið félagsskap. Síðastliðið haust var farið af stað með fjáröflun til að fjármagna verkefnið.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan hjá körlunum í skúrum. Fleiri myndir frá framkvæmdunum í liðinni viku má sjá hér að neðan.

Einvígið: Haukar – ÍBV

DSC_4457
Elmar Erlingsson skoraði 12 mörk gegn Haukum í síðasta leik. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Annar leikur í einvígi ÍBV og Hauka fer Fram í dag, sunnudag. Eyjamenn sigruðu fyrsta leikinn í Eyjum og með sigri í dag þá tryggir liðið sig í undanúrslit.

Upphitun verður á Ölhúsinu í Hafnarfirði fyrir leik og hefst hún um klukkan 13. Leikurinn að Ásvöllum hefst klukkan 16.00 og verður hann í beinni hjá Sjónvarpi Símans.

Leikir dagsins:

sun. 14. apr. 24 14:00 1 KA heimilið RMI/ÞÁB/KHA KA – FH
sun. 14. apr. 24 16:00 1 Ásvellir BBÓ/GGÚ/GEG Haukar – ÍBV

Laxey og AKVA Group áfram í samstarfi

laxey_akva_24_la
Áframhaldandi samstarf Laxey og AKVA Group handsalað. Ljósmynd/Laxey

Í dag var tilkynnt um að samstarf Laxeyjar og AKVA Group haldi áfram. Á facebook síðu Laxeyjar er að það sé með stolti og ánægju sem tilkynnt sé um áframhaldandi samstarf við AKVA Group.

„Samstarf Laxey við AKVA Group við uppsetningu á seiðastöðunni, sem notar RAS tækni, gekk mjög vel. Það var því auðvelt ákvörðun að halda samstarfinu áfram með áframeldið út í Viðlagafjöru með AKVA Group sem mun vera okkur til halds og traust við uppsetningu á áframeldinu okkar. Stöðin út í Viðlagafjöru mun nota gegnumflæðisstreymi að mestu leyti, sjórinn er endurnýttur til hitunar áður en honum er skilað í sjóinn. Við hlökkum því til áframhaldandi samstarfs og framtíðarinnar með AKVA Group innanborðs í þessari vegferð sem LAXEY er í.“